Innlent

Vinna við Kárahnjúka stöðvast

Vinna við undirstöðu Kárahnjúkastíflu hefur legið niðri síðan í gærkvöldi þar sem vatn hefur lekið í gegnum varnargarð og inn á vinnusvæðið. Þar er nú dælt af svæðinu með öflugum dælum en ekki munu hafa orðið skemmdir á þeim mannvirkjum sem þegar eru komin þrátt fyrir að vatnið hafi orðið allt að þriggja metra djúpt í nótt. Unnið er dag og nótt við að hækka og breikka varnargarðinn sem á að beina vatni Jökulsár á Dal inn í hjáveitugöng fram hjá vinnusvæðinu. Garðurinn hækkaði um einn metra í nótt en hann er 25 metra breiður og nokkuð langur. Allt er óbreytt með hjáveitugöngin þau virðast ekki anna því vatni sem berst en sem betur fer sjatnar í ánni yfir nóttina og hún fer ekki að vaxa fyrr en síðdegis. Sérfræðingar á vinnusvæðinu eiga jafnvel von á meira flóði í kvöld en í gærkvöldi og er nú rætt um að koma stögum á brúnna yfir Jöklu en vatn flæddi yfir hana í gærkvöldi og aflagaði timburgólfið í henni. Þá er íshröngl á henni en í gærkvöldi var mörgum bílhlössum af möl sturtað á hana til að hemja timburgólfið. Burðarvirki brúarinnar er þó heilt. Brúin verður lokuð umferð um óákveðinn tíma en hægt er að komast í vinnubúðirnar eftir annari og lengri leið. Óvíst er hvenær viðgerðinni lýkur og í dag á að reyna að koma háspennustrengnum, sem var undir brúnni, fyrir með öðrum hætti eða strengja hann yfir ána.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×