Innlent

Vegið að mannlegri virðingu fólks

Vegið er að mannlegri virðingu og sjálfræði hælisleitenda með því að greiða þeim ekki vasapeninga, að mati Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns. Um áramót tók félagsþjónusta Reykjanesbæjar við umsjá fólks sem hér leitar pólitísks hælis og um leið var látið af greiðslum vasapeninga líkt og tíðkast hafði fyrir þann tíma þegar umsjá fólksins var í höndum Rauða kross Íslands. "Það hefur nú verið vaninn til þessa hér á Norðurlöndum að greiða slíka vasapeninga þannig að fólk hefði eitthvert sjálfræði. Þetta er meðal annars gert til að fólk glati ekki algjörlega hinni mannlegu virðingu og geti gert aðra hluti en þá sá sem heldur þeim uppi ákveður, til dæmis keypt sér tannkrem, tannbursta, eða jafnvel farið í bíó," segir Ragnar og bætir við að ákvörðunin um að greiða fólkinu ekki vasapeninga sé pólitísk. "Í þessu liggja ugglaust skilaboð um að menn skuli ekki koma hingað í leit að hæli." Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands, telur nokkuð harkalega fram komið við hælisleitendur að neita þeim um vasapeninga. "Þetta eru manneskjur eins og aðrir," segir hann og telur að haga ætti umönnun flóttafólks með þeim hætti að það geti borið höfuðið sem hæst miðað við bágar aðstæður sínar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×