Lífið

Venjulegt fólk fer í Smáralindina

"Rónarnir eru á Ingólfstorgi en venjulegt fólk fer í Smáralindina," segir leikritahöfundurinn Jón Atli Jónasson en Reykvíska listaleikhúsið frumsýnir verk hans, Krádplíser, í kvöld. Verkið er úttekt á verslunarmiðstöðvarkúltúr landsmanna og upphaflega átti að sýna Krádplíser í verslunarmiðstöð. "Í Bretlandi kallast þetta "site specific" leikhús og til dæmis sá ég þar sýningu sem nefnist Hospital og fjallaði um það hvernig börn upplifa spítalavist. Til að sjá verkið mættu áhorfendur á spítala og þar hafði einni deildinni verið breytt í leikhús." Krádplíser Jóns Atla þróaðist þegar Smáralindin opnaði á sínum tíma. "Hugmyndin var að sýna verkið þar að nóttu til en því hefði fylgt aðeins of mikið vesen auk þess sem Smáralindin er með sitt eigið leikhús," segir Jón Atli og því er Krádplíser sýnt í 400 fermetra hráu rými í Tónlistarþróunarmiðstöðinni á Hólmaslóð 2. Þegar áhorfendur mæta á svæðið fara þeir í ferðalag með leikhópnum. "Þetta gerist rétt fyrir opnun á nýrri verslunarmiðstöð og eins og Íslendingum er von og vísa er allt á síðustu stundu. Við fylgjumst með því hvernig persónunum tekst að fóta sig á þessu nýja landsvæði og áhorfendur gegna þar ákveðnu hlutverki. Í verslunarmiðstöðvunum eru til staðar ótal óskráðar samskiptareglur, til dæmis má ekki vera með videoupptökuvél í Kringlunni án þess að allt fari úr skorðum. En verslunarmiðstöðvarnar eru líka svolítið eins og hver og einn vill að þær séu, þar fær fólk það sem það vill og ég vona að Krádplíser verði líka þannig." Uppselt er á frumsýninguna í kvöld en Krádplíser verður næst sýnt 27. og 28 júlí klukkan 18.00. Miðapantanir eru á netfanginu tvkart@hotmail.com.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×