Innlent

Hlemmur í endurnýjun lífdaga

Strætisvagnastöðin Hlemmur mun ganga í endurnýjun lífdaga. Fyrsta skrefið er að loka hluta Hverfisgötu fyrir almennri bílaumferð og endurbyggja hringtorg við Skúlagötu. Tilefni breytinganna er m.a. áform Strætó bs. um að breyta leiðakerfi sínu og gera Hlemm að endastöð vagnanna. Þetta krefst töluverðra breytinga á umferð um svæðið. Samkvæmt tillögum er t.a.m. gert ráð fyrir að loka Hverfisgötu sunnan lögreglustöðvarinnar, milli Rauðarárstígs og Snorrabrautar, fyrir almennri umferð þannig að vagnar geti staðnæmst þar sem nú er götustæði. Gert er ráð fyrir að lega Laugavegar á svæðinu austan Rauðarárstígs breytist en almenn bílaumferð mun fara um Laugaveg og niður á Sæbraut. Það þýðir að þó nokkur umferðarþungi færist yfir á Skúlagötu. Vandamál sem því fylgja verða leyst með því að Skúlatorgið verður endurbyggt og býður þá upp á þær tengingar sem til þarf svo gatnakerfið virki. Áformað er að framkvæmdir hefjist strax í sumar eða haust svo framarlega sem þessar breytingar á deiliskipulagi verða samþykktar. Beygur mun þó vera í hagmunaaðilum á svæðinu og einhverjir óttast til dæmis að fækkun bílastæða hefti aðgengi. Tillagan á þó að vera í samræmi við markmið og samþykktir þróunaráætlunar miðborgarinnar. Þá verður einnig heimilað að hækka og stækka húsin vestan Hlemms, við Hverfisgötu 112 og 114, til samræmis við önnur hús í kring. Ljóst er því að um töluverðar breytingar gæti verið að ræða á svæðinu öllu. Forstjóri Strætó bs., Ásgeir Eiríksson, segir enn ekkert liggja fyrir um það hvaða breytingar verða gerðar á sjálfum Hlemmi en með breytingum á gatnakerfinu opnist þó ýmisir möguleikar sem gætu hrist af það slyðruorð sem hefur fests við strætisvagnastöðina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×