Innlent

Tveir bílar fjarlægðir

Tæknideild lögreglunnar fjarlægði í dag tvo bíla frá húsinu í Stórholti, þar sem Sri Ramawati var nóttina áður en hún hvarf. Nágrannar sambýlismanns hennar segjast ekki hafa orðið varir við neitt óvenjulegt þessa nótt. Sjö dagar eru síðan Srí Ramawati hvarf og ekkert hefur spurst til hennar. Lögreglan er ennþá á vettvangi við rannsóknir. Fyrrverandi sambýlismaður Srí hefur verið handtekinn en hann neitar að vera valdur að hvarfi hennar. Lögreglan fjarlægði í dag tvo bíla frá húsinu, í Stórholti. Annarsvegar þar það vinnubíll fyrrverandi sambýlismanns og barnsföður Sri Ramawati, og hinsvegar bíll hennar sjálfrar. Jeppi sambýlismannsins hafði þegar verið fjarlægður til rannsóknar, enda hafði að sögn fundist í honum mikið blóð, sem og í íbúðinni sjálfri. DNA sýni, bæði úr einkabíl mannsins og íbúðinni, voru send til Noregs, og er vonast til að niðurstöður úr þeirri rannsókn berist eftir helgina. Sri Ramawati hvarf aðfararnótt síðasta sunnudags, og er það síðast vitað um ferðir hennar að hún fór í heimsókn til sambýlismannsins fyrrverandi. Ættingjar tilkynntu um hvarf hennar á mánudaginn og maðurinn var handtekinn á þriðjudag. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald og áfrýjaði ekki þeim úrskurði. Þótt lögreglan verjist allra frétta af málinu virðist hún vera nokkuð viss um hvað hafi gerst. Hvorki hefur verið lýst eftir Sri Ramawati, né gerð að henni skipuleg leit. Nágrannar hins handtekna, sem búa á efri hæð hússins sögðu fréttastofu að þeir hafi ekki orðið varir við neitt óvenjulegt nóttina sem Sri Ramawati hvarf, þeir hafi því miður ekkert geta aðstoðað lögregluna við rannsókn hennar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×