Innlent

Blindir kajakræðarar til Grænlands

Tveir blindir kajakræðarar undirbúa leiðangur meðfram gervallri austurströnd Grænlands, sem þeir leggja í ásamt tveimur aðstoðarmönnum 29. júlí. Tilgangurinn er að sýna fram á að blindir og sjónskertir geti tekið virkan þátt í samfélaginu fái þeir tækifæri til þess. Fjórmenningarnir ætla sér að róa á tveimur tveggja manna sjókajökum frá Kulusuk á austurströnd Grænlands, niður til fyrstu bæjar á suður Grænlandi. Leiðin er rúmlega 1000 kílómetrar og er áætlað að hún muni taka 6-8 vikur. Leiðangurinn er farinn til fjáröflunar fyrir blindrafélagið og verður áheitum safnað á meðan á honum stendur. Einnig er ætlunin að kynna málefni blindra og sjónskertra á Íslandi með uppátækinu. Þeir Einar Lee og Friðgeir Þráinn Jóhannesson leggja af stað í ferðina 29. júlí ásamt aðstoðarmönnum sínum þeim Reyni Jóhannessyni og Baldvini Kristjánssyni, sem er þrautreyndur kajakmaður. Fjórmenningarnir voru saman komnir í Hvammsvíkinni í dag til að æfa sig fyrir ferðina. Þetta er önnur æfingaferðin sem farin er þangað og í hvort skipti hefur hópurinn dvalist þar yfir nótt og æft tvo daga. Þegar fréttamaður kom á staðinn voru þeir að gera sig klára fyrir kajakferð út í víkina og greinilega kominn spenningur í hópinn fyrir ferðina til Grænlands.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×