Innlent

Skólastofur í bústöðum

Nemendum, sem hefur verið bjargað um skólavist í framhaldsskóla næsta vetur, verður meðal annars komið fyrir í sumarhúsum á lóðum Fjölbrautaskólans við Ármúla og Menntaskólans við Hamrahlíð. Framhaldsskólarnir taka við nemendunum í þeirri von að byggt verði við skólana innan skamms. Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær verður stórum hluta þeirra nýnema sem synjað var um skólavist í framhaldsskólum komið fyrir í þrem skólum á höfuðborgarsvæðinu. Við tvo skólanna verður auknum nemendafjölda mætt með því að reisa sumarhús. Forsvarsmenn skólanna segjast hafa komið til móts við Menntamálaráðuneytið nú í þeirri trú að framtíðarlausn verði fundin og staða sem þessi komi ekki upp aftur. Sigurborg Matthíasdóttir konrektor við Menntaskólann við Hamrahlíð sagði að þau hefði samþykkt því ástandið í lok júní hefði verið óskiljanlegt. Hún segist vita hversu áríðandi það sé fyrir ungmenni að komast inn í skóla eftir grunnskóla. Ólafur H. Sigurjónsson, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskólans við Ármúla, tók í sama streng. Nemendur ættu rétt á skólavist og samþykkt hefði verið að taka við allstórum hópi nemenda ef til kæmi viðbótarhúsnæði og fjárveitingar. Hann sagði að tekið yrði vel á móti nemendum en vonaði að varanleg bót yrði ráðinn á málinu í framtínni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×