Innlent

Orð Eiríks Tómassonar vega þungt

Jónína Bjartmarz þingmaður Framsóknarflokksins og varaformaður Allsherjarnefndar segist hafa lært sama stjórnskipunarrétt og Eiríkur Tómasson lagaprófessor. Hún vill að öðru leyti ekki tjá sig um ummæli Davíðs Oddsonar þess efnis að ríkisstjórnin geti ekki gert mikið með vitlaus lagaálit. Allsherjarnefnd hitti lögspekingana Eirík Tómasson og Davíð Þór Björgvinsson fyrir hádegi en Þjóðarhreyfinguna, sem berst gegn fjölmiðlalögunum, eftir hádegi þegar fréttir höfðu borist af ummælum forsætisráðherra um vitlausa lögfræðinga. Jónína Bjartmarz, varaformaður Allsherjarnefndar, sagði vinnu nefndarinnar rétt að byrja en vissulega myndu orð Eiríks Tómassonar vega þungt enda væri hann prófessor í stjórnskipunarrétti. Hún vildi þó ekki segja hvort hún væri sammála honum eða ekki. Um ummæli forsætisráðherra sagðist Jónína ekki hafa neitt að segja. Stjórnarandstaðan er sammála um að ummæli Davíðs Oddssonar hitti hann sjálfan fyrir. Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna segir ummæli forsætisráðherra í sama stíl og þegar hann hæddist að þúsundum manna sem mótmæltu fjölmiðlalögunum í gær. Ummæli hans afgreiði sig sjálf. Guðjón A Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, undrast það að heyra Davíð Oddsson segja að hægt sé að fá lögfræðinga útí bæ til að segja einhverja vitleysu. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, segir orðbragð forsætisráðherra dæma sig sjálf. Þegar menn geti ekki tekið rökum og séu ekki reiðubúnir til að skoða röksemdir helsta sérfræðings í stjórnskipunarmálum, séu menn komnir á einstígi og rati ekki til baka. Eiríki Tómassyni finnst ummælin ekki sæmandi forsætisráðherra en annars séu þau ekki svara verð.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×