Innlent

Allir nýnemar fá skólavist

Fjölbrautaskólinn við Ármúla, Menntaskólinn við Hamrahlíð og Flensborgarskóli í Hafnarfirði eiga að taka við þorra nýnema sem synjað hafði verið um skólavist í framhaldsskóla í haust. Þessi lausn kostar ríkið á bilinu 200 til 250 milljónir króna vegna framkvæmda við skólana. Á fimmta hundrað nýnemum var synjað um vist í framhaldsskóla í síðastliðnum mánuði. Í landslögum segir þó að allir þeir sem nái samræmdum prófum eigi rétt á framhaldsskólanámi. Talsmenn menntamálaráðuneytisins segja málið hafa verið leyst með því að bæta við kennslustofum í þrem skólum. Steingrímur Sigurgeirsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra, segir að einungis eigi eftir að koma fyrir innan við tíu nemendum og verði það gert á næstu vikum. Til að koma öllum fyrir hafi þurft að fjölga kennslustofum þar sem kostur var á. Leigt hafi verið viðbótarhúsnæði í Hafnarfirði fyrir Flensborgarskólann, kennslustofum var bætt við í Ármúla og rými aukið í Hamrahlíðinni. Þess fyrir utan hafi verið þjappað betur í aðra skóla til að tryggja að allir kæmust fyrir. Steingrímur segir viðbótarkostnaðinn vegna framkvæmdanna nema á milli 200 og 250 milljónum króna. Hann segir aldrei annað hafa staðið til en að veita öllum nýnemum framhaldsskólapláss í haust, þrátt fyrir að yfir 400 þeirra hafi fengið sent til heim til sín synjunarbréf vegna umsóknar um nám í framhaldsskólum. Hann segir ekki fullvíst að unnt verði að veita öllum eldri umsækjendum pláss í haust, en nýnemarnir fái hins vegar allir inni í skólum á höfuðborgarsvæðinu. Séu einhverjir enn óvissir um það hvort þeir fái skólavist í haust eigi þeir að setja sig í samband við menntamálaráðuneytið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×