Innlent

Sátt um löggæslukostnað

Sátt hefur náðst um löggæslukostnað vegna landsmóts UMFÍ á Sauðarkróki eftir nokkurt þref. Veðrið lék við landsmótsgesti í dag, þar sem saman voru komnir keppendur og áhorfendur á öllum aldri. Metþátttaka er á landsmótinu í ár. Það voru ekki eingöngu íþróttagarparnir sem héldu áhorfendum við efnið í dag, því hljómsveit mætti á svæðið og spilaði þekkta slagara og kandíflossmaðurinn sá börnunum fyrir óvæntri skemmtun. Björn Jónsson, formaður UMFÍ segir landsmótið hafa gengið afar vel og sátt hafi náðst vegna löggæslukostnaðar á mótinu, en eins og kunnugt er hefur töluverður styr staðið um hann. Félagið hafi átt góða fundi með fulltrúum hins opinbera og líklegt að góðri lendingu hafi verið náð. Björn segir framtíð landsmótsins bjarta, enda verði haldið upp á tvö 100 ára afmæli á næstu tveimur mótum, annars vegar hundrað ára afmæli UMFÍ árið 2007 og hins vegar 100 ára afmæli landsmótsins árið 2009. Það er vonandi að veðrið verði jafn gott þar eins og það var í dag, en hitinn fór upp í 25 gráður í forsælu þegar heitast var.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×