Innlent

Konan neitar sök

Ríkissaksóknari gaf í dag út ákæru á hendur konu frá Sierra Leone, fyrir að hafa flutt hingað til lands yfir fimm þúsund e-töflur, þann tíunda síðasta mánaðar. Efnin fundust í farangri konunnar við komu til Keflavíkurflugvallar, en það vakti mikla athygli að konan er barnshafandi. Málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness nú fyrir stundu. Konan neitaði sök fyrir dómi. Hún segist ekki hafa vitað af efnunum í farangri sínum og hefur við yfirheyrslur gefið mögulegar skýringar á því hverjir gætu hafa komið þeim fyrir. Þær skýringar hafa ekki verið teknar trúanlegar. Konan hefur einnig sagt að hún hafi ætlað að hitta tiltekinn mann hér á landi, en ekki hefur heldur tekist að sannreyna þann framburð. Samkvæmt heimildum fréttastofu er hún vændiskona. Lögheimili hennar er í Hollandi, en hún kom hingað frá París. Aðalmeðferð málsins verður fyrir Héraðsdómi 20. júlí. Konan situr í gæsluvarðhaldi í kvennafangelsinu í Kópavogi til 28. júlí, en dómur verður líklega kveðinn upp áður en varðhaldið rennur út.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×