Innlent

Um 5000 gestir þegar mættir

Umferð til Sauðárkróks er farin að þyngjast nú á öðrum degi landsmóts UMFÍ og tjaldstæði keppenda að verða þétt skipuð. Keppni hefst í dag í flestum greinum en nánari upplýsingar um dagskrá keppninar er að finna á www.landsmotumfi.is. Mótshaldið fer vel af stað, enda veðrið með besta móti, hitinn á Bergsstöðum við Sauðárkrók var 19°C klukkan níu í morgun í hægri sunnanátt. Heiðskýr himinn og sólin skín. Talið er að gestir séu nú þegar um 5.000 og gert er ráð fyrir að þeim fjölgi verulega í dag. Formleg setningarathöfn mótsins fer fram í kvöld með þáttöku góðra gesta, þeirra á meðal verður forseti Íslands, Hr. Ólafur Ragnar Grímsson. Meðal þess sem gestum verður boðið upp á í kvöld eftir setningarathöfn er fimleikasýning frá danska fimleikaflokknum Verdendholdet og tónlist með hljómsveitinni Á móti sól og Geirmundi Valtýssyni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×