Innlent

Bíll konunnar í Stórholti

Bíll konunnar sem saknað hefur verið síðan á sunnudagsmorgun og grunað er að hafi verið ráðinn bani, hefur verið fyrir utan íbúð fyrrverandi sambýlismanns hennar í Stórholti síðan á sunnudag. Talið er að þetta hafi meðal annars komið lögreglunni á sporið í rannsókn málsins. Á þriðjudaginn, degi eftir að ættingjar konunnar höfðu leitað til lögreglunnar, var fyrriverandi sambýlismaður hennar handtekinn og yfirheyrður. Maðurinn, sem er 45 ára, var síðan í fyrradag úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur. Í gærkvöld hafði maðurinn ekki kært úrskurðinn. Í yfirheyrslum hefur maðurinn neitað að eiga nokkurn þátt í hvarfi konunnar. Rannsókn lögreglunnar á málinu er mjög umfangsmikil. Tæknideild hennar verið við vinnu í íbúðinni í Stórholti og fyrir utan hana síðustu þrjá daga. Þar hefur verið leitað að lífssýnum og annars konar sýnum sem verða rannsökuð. Þegar hefur fundist blóð í íbúðinni og í jeppa, sem er í eigu mannsins. Enn hefur ekki verið lýst eftir konunni sem bendir til þess að eitthvað saknæmt hafi átt sér stað.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×