Innlent

Dómur fyrir bankaránstilraun

Maður á þrítugsaldri var í dag dæmdur í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tilraun til bankaráns í útibúi Landsbankans við Gullinbrú í desember á síðasta ári. Hann hafði enga peninga með sér á brott í ránstilrauninni en var ákærður fyrir að ógna starfsfólki bankans með hnífi. Maðurinn játaði skýlaust verknaðinn, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, og var samvinnuþýður við rannsókn málsins. Í dómnum segir að fresta skal fullnustu refsingar og hún falla niður að þremur árum liðnum frá birtingu dómsins, haldi ákærði almennt skilorð. Hann var hins vegar dæmdur til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns að upphæð 70 þúsund krónur. Ákærði hefur þrívegis gengist undir sáttir fyrir umferðarlagabrot og brot á fíkniefnalögum. Þá var hann dæmdur til greiðslu sektar fyrir fíkniefnabrot og skjalafals fyrr á þessu ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×