Innlent

Skýrari stefnumótun háskóla

Þörf er á skýrari stefnumótun um háskólastigið samkvæmt nýrri skýrslu Ríkisendurskoðunar um námsframboð og nemendafjölda við háskóla. Í skýrslunni er lagt til að yfirvöld menntamála móti opinbera og áþreifanlega heildarstefnu um háskólastigið þar sem verkefnum yrði forgangsraðað, þau tímasett og mælanleg markmið skilgreind. Fram kemur að þróun háskólastigsins hafi að sumu leyti verið hraðari en stjórnvöld sáu fyrir og ýmis álitamál sprottið upp vegna fjölgunar skóla, meðal annars um fjármögnun skólanna, stjórnun og rekstrarform. Til samanburðar var skoðað hvernig þessum málum væri háttað í Noregi, Hollandi og á Bretlandi. Skráðir nemendur við háskóla hér á landi hafa næstum tvöfaldast á einum áratug og voru tæplega 14 þúsund árið 2002. Ríkisendurskoðun leggur til að stjórnvöld skoði hvort sameina eigi alla stjórnsýslu á sviði háskólamála undir einu ráðuneyti. Þá telur stofnunin ástæðu til að skoða hvort ekki ætti að árangurstengja fjárveitingar til kennslu á háskólastigi við árangur nemenda og skólans sjálfs þannig að fjárveitingar taki mið af því hve mörgum einingum nemendur ljúka árlega og hve margar prófgráður skólinn veitir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×