Innlent

Fíkniefnabrotum fjölgar um tæp 50%

Fíkniefnabrotum fjölgaði um næstum því 50% í fyrra frá árinu áður samkvæmt ársskýrslu lögreglunnar í Reykjavík. Fimmtungi færri nauðganir voru tilkynntar.  Í ársskýrslu lögreglunnar í Reykjavík er farið yfir helstu atriði í starfsemi embættisins á síðasta ári. Fram kemur að almennt hafi starfsemi lögreglunnar gengið vel á árinu og góður árangur náðst í ýmsum málaflokkum. Þannig fækkaði auðgunarbrotum um 13% á milli ára, þar af fækkaði innbrotum um 11% og þjófnuðum um 16%. Fíkniefnabrotum fjölgaði hins vegar um 47 af hundraði. Þessi þróun er að hluta til rakin til meira eftirlits lögreglu en lögreglumönnum, sem sinna eftirliti á ómerktum bifreiðum, var fjölgað á árinu. Alls voru kærð 711 ofbeldisbrot til lögreglunnar á árinu 2003 eða jafnmörg og árið á undan. Alvarlegum líkamsárásum fækkaði en minniháttar líkamsárásum fjölgaði, auk þess sem verulega dró úr tilkynntum nauðgunum eða um fimmtung. Loks fækkaði umferðarlagabrotum frá fyrra ári um 28% en þau eru svipuð að fjölda og árin þar á undan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×