Innlent

Á sjöttu milljón sótt landið heim

Fjörutíu ár eru liðin síðan Ferðamálaráð Íslands tók til starfa en fyrsti fundur ráðsins var haldinn þann 7. júlí 1964. Í tilefni tímamótanna opnaði samgönguráðherra nýjan og breyttan upplýsingavef ráðsins, á sex tungumálum. "Á þessum fjörutíu árum höfum við tekið á móti 5,2 milljónum erlendra ferðamanna," segir Magnús Oddsson ferðamálastjóri. "Þeir eru besta kynningin sem íslensk ferðaþjónusta fær." Að sögn Magnúsar hefur orðið ótrúleg þróun í íslenskri ferðaþjónustu á tímabilinu. "Þegar við byrjuðum var ferðaþjónustan að breytast úr því að vera tómstundagaman og í að verða þessi alvöru grein," segir Magnús. "Það hefur orðið algjör bylting á þessum árum." Að sögn Magnúsar er hlutverk ferðamálaráðs fyrst og fremst að vinna að almennum kynningar- og markaðsmálum fyrir Ísland sem ferðamannaland. Þá komi ráðið að uppbyggingu í ferðaþjónustu víða um land auk þess að upplýsingaþátturinn verði sífellt veigameiri í starfseminni. Nefnir Sigurður sem dæmi að um 60 þúsund manns skoði vef ferðamálaráðs, www.icetourist.is, í hverjum mánuði.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×