Innlent

Betri veiði en í fyrra

Algjört hrun er í laxveiðum í norskum ám það sem af er sumri en veiði í mörgum íslenskum ám er mun betri en í fyrra. Þó eru enn lausir veiðidagar á besta tímanum í nokkrum dýrustu ánum.   Í Vestur-Noregi er aflinn aðeins þriðjungur af afla í meðal ári, að því er Intra Fish greinir frá. Engin einhlít skýring er á þessu en sumir kenna þrálátum norðanáttum um ástandið og undanfarin ár hafa laxveiðimenn líka kennt um slæmum áhrifum frá fiskeldi í sjó. Þetta ástand hefur dregið úr áhuga veiðimanna og eru nú dæmi um að veiðileyfi seljist ekki í sumar árnar, sömu ár og biðraðir hafa verið eftir veiðileyfum í til þessa. Sem dæmi um hnignandi laxveiði í Noregi má nefna að sumarið 2001 gegnu 4.700 laxar í Molsá, árið eftir 3.700 og  3.300 í fyrra. Í ár er veiðin þar svo mun slakari en í fyrra. Allt aðra og betri sögu er að segja af flestum íslensku laxveiðiánum. Árnar á suðvestur- og vesturlandi hafa almennt skilað betri veiði en á sama tíma í fyrra en húnvetnsku árnar fara hægar af stað en í fyrra, þó með þeirri undantekningu að betri veiði hefur verið í Blöndu en áður. Þá er það að skýrast þessa dagana hvernig aðrar norðlenskar ár, og ár á norðausturhorninu, koma út. Samkvæmt nokkurra ára gamalli könnun veiða rúm þrjátíu prósent landsmanna eitthvað yfir sumarið, eða nálægt 60 þúsund manns, og hátt í 500 þúsund stangveiðidagar eru í boði. Talið er að landsmenn eyði árlega u.þ.b. milljarði króna einungis í veiðileyfi en dýrasta veiðileyfi sem fréttastofan hefur heyrt um í sumar er 250 þúsund krónur fyrir daginn sem reyndar var í niðursölu. Dæmi eru um að enn sé hægt að fá veiðidaga í nokkrum dýrustu ánna en yfirleitt er allt uppselt á ódýrari veiðisvæðum. Þetta er talin vísbending um að verðið sé búið að ná einhverju hámarki og að enn frekari verðhækkanir muni einfaldlega draga úr eftirspurn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×