Innlent

Mest aðsókn til Noregs

"Á þessu ári hafa 72 komið til landsins til að vinna og 76 íslenskir unglingar farið til hinna Norðurlandanna hingað til," segir Alma Sigurðardóttir, tómstundafulltrúi hjá Norræna félaginu, en félagið sér um allar umsóknir vegna Nordjobb sem er mannskiptaáætlun Norðurlandanna. Gegnum Nordjobb getur ungt fólk sem vel er að sér í tungumálum sótt sumarstörf í Svíþjóð, Noregi, Danmörku, Færeyjum eða Finnlandi og fólk þaðan sótt vinnu hér á Íslandi. Mesta aðsóknin á þessu ári er til Noregs en þar eru launin að jafnaði aðeins hærri en annars staðar auk þess sem góður tími gefst til ferðalaga um þetta fallega land. Alls sóttu 2.600 manns um starf þar gegnum Nordjobb af 4.200 umsækjendum á árinu. Áætlunin er fjármögnuð af Norrænu ráðherranefndinni og Norrænu félögunum. Alma segir að fátt sé meira spennandi en starfa erlendis á þessum aldri en Nordjobb er ætlað öllum á aldrinum 18 til 26 ára sem áhuga hafa. "Það er enginn efi að eitt slíkt sumar situr lengi í minningunni enda eru langflestir mjög ánægðir þegar heim er komið aftur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×