Innlent

Risadósin fjarlægð

Risa Majónesdós sem komið var fyrir við þjóðveginn, rétt vestan Þjórsárbrúar, verður fjarlægð og flutt að höfuðstöðvum Gunnars Majónes í Hafnarfirði. Forsvarsmenn fyrirtækisins sendu frá sér yfirlýsingu í dag og segir þar að vegna misskilnings beri þeim ekki saman við sýslumanninn á Selfossi. Óskað hafi verið eftir leyfi sýslumannsins fyrir auglýsingunni og því ekki talið að frekari leyfi þyrfti. Ennfremur segir að ekki hafi verið ætlun fyrirtækisins að valda vegfarendum óþægindum með þessu framtaki. Fyrr í þessum mánuði létu forsvarsmenn Gunnars Majones hf. reisa eftirlíkingu af Majonesdós á landi í eigu eigenda fyrirtækisins í Villingaholtshreppi. Óskað hafði verið eftir leyfi fyrir auglýsingunni hjá sýslumanninum á Selfossi og var skilningur forsvarsmanna Gunnars Majones, eftir að hafa ráðfært sig við sýslumanninn, að ekki þyrfti að leita frekari leyfa hjá t.a.m. bygginganefnd svæðisins, að því er segir í yfirlýsingunni.  Til þess að koma í veg fyrir frekari leiðindi vegna þessa máls munu forsvarsmenn Gunnars Majones nú láta fjarlægja eftirlíkinguna og flytja hana að skrifstofum fyrirtækisins í Hafnarfirði. Þegar hefur verið óskað eftir leyfi frá byggingarfulltrúa Hafnarfjarðar til þess að reisa dósina fyrir utan skrifstofur fyrirtækisins að Dalshrauni 7. Í yfirlýsingunni segir ennfremur orðrétt: „Það var ekki ætlun forsvarsmanna Gunnars Majones að valda vegfarendum óþægindum með þessu framtaki, heldur einungis minna á starfsemi og vörur fyrirtækisins sem framleiddar hafa verið í 44 ár ... Hafi auglýsingin valdið einhverjum óþægindum þykir okkur það leitt og við biðjumst velvirðingar. Þá vonum við að vegfarendur sýni okkur biðlund á meðan verið er að undirbúa flutning dósarinnar stóru til nýju heimkynna hennar að Dalshrauni 7 í Hafnarfirði.“



Fleiri fréttir

Sjá meira


×