Innlent

Tveggja vikna gæsluvarðhald

Karlmaður um fertugt var úrskurðaður í tveggja vikna gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en maðurinn er grunaður um aðild að hvarfi fyrrverandi sambýliskonu sinnar og barnsmóður. Konan, sem er um þrítugt, hefur ekki sést síðan aðfararnótt sunnudags. Maðurinn var handtekinn síðdegis í gær í tengslum við rannsókn á hvarfi fyrrverandi sambýliskonu sinnar. Húsleit var gerð á heimili hans í Stórholti í Reykjavík og var það girt af. Einnig kom tæknideild lögreglunnar fyrir tjaldi og búnaði í hluta garðs til að leita að vísbendingum. Samkvæmt heimildum fréttastofu fundust nægar vísbendingar á staðnum til að handtaka manninn. Ennfremur var lagt hald á jeppabifreið hans til að rannsaka hvort konan kynni að hafa verið flutt á brott í henni. Að sögn Sigurbjörns Víðis Eggertssonar hjá rannsóknardeild lögreglunnar tilkynntu börn og önnur skyldmenni konunnar um hvarf hennar í fyrradag en ekki hafði sést til hennar síðan á aðfararnótt sunnudags. Hún er rúmlega þrítug og af asísku bergi brotin en rannsókn á hvarfi hennar hófst um hádegisbil í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×