Innlent

Lóðakaup Sparisjóðs Hafnarfjarðar

Engu er líkara en að Hafnfirðingar séu að hefja mikla landvinninga í Reykjavík því borgarráð samþykkti í gær að selja Sparisjóði Hafnarfjarðar lóðir undir 61 íbúð í öðrum áfanga Norðlingaholts. Þetta eru ýmist lóðir fyrir samtengd tvíbýlishús eða raðhús en ekki fyrir íbúðir í fjölbýlishúsum. Þór Gunnarsson sparisjóðsstjóri segir að ekki standi til að Sparisjóðurinn sjálfur ætli að ráðast í byggingar á svæðinu heldur sé hann að fjármagna verktaka sem ætli að gera það. Um leið og framkvæmdir þeirra verði orðnar veðhæfar flytjist byggingarétturinn yfir á þá, að sögn Þórs. Það vekur líka athygli að Frjálsi fjárfestingabankinn er kaupandi að lóðum fyrir 32 íbúðir og fimm einbýlishús. Samanlagt kaupa þessir tveir fjárfestar yfir helming allra lóða í þessum áfanga og næst kemur Fasteignafélagið Hlíð með um 50 íbúðir í fjölbýlishúsum. Aðeins þrír verktakar kaupa beint, samtals lóðir fyrir 36 íbúðir. Að sögn kunnugra á fjármálamarkaði endurspeglar þetta að öllum líkindum að byggingafyrirtæki séu almennt heldur illa stödd fjárhagslega um þessar mundir og geti því ekki fjármagnað lóðakaupin sjálf. Íbúðir verði líklegast eitthvað dýrari en ella þegar byggingafyrirtækin þurfi að kaupa þjónustu fjármálafyrirtækja strax á fyrsta stigi framkvæmda.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×