Innlent

Allt að 10 daga gæsluvarðhald

Krafist verður allt að tíu daga gæsluvarðhalds nú í hádeginu yfir rúmlega fertugum manni sem grunaður er um aðild að hvarfi fyrrverandi sambýliskonu sinnar og barnsmóður. Konan, sem er um þrítugt, hefur ekki sést síðan aðfararnótt sunnudags.  Maðurinn var handtekinn síðdegis í gær í tengslum við rannsókn á hvarfi fyrrverandi sambýliskonu sinnar. Húsleit var gerð á heimili hans í Stórholti í Reykjavík og var það girt af. Einnig kom tæknideild lögreglunnar fyrir tjaldi og búnaði í hluta garðsins til að leita að vísbendingum. Samkvæmt heimildum fréttastofu fundust nægar vísbendingar á staðnum til að handtaka manninn. Ennfremur var hald lagt á jeppabifreið hans til að rannsaka hvort konan kynni að hafa verið flutt á brott í henni. Að sögn Sigurbjörns Víðis Eggertssonar hjá rannsóknardeild lögreglunnar tilkynntu börn og önnur skyldmenni konunnar um hvarf hennar í fyrradag en ekki hafði sést til hennar síðan á aðfararnótt sunnudags. Hún er rúmlega þrítug og af asísku bergi brotin en rannsókn á hvarfi hennar hófst um hádegisbil í gær. Hún og maðurinn höfðu verið í sambúð um skeið. Lögreglan leitaði ummerkja langt fram á kvöld í gær og verður rannsókninni haldið áfram í dag. Ekki fékkst staðfest hvort ummerki um átök hefðu fundist í íbúðinni en samkvæmt heimildum fréttastofu fannst blóð bæði inni í íbúðinni og fyrir utan húsið. Sigurbjörn Viðir Eggertsson segir að enginn annar hafi verið handtekinn vegna málsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×