Innlent

R-listinn í ferð án fyrirheits

Ólafur F. Magnússon, fulltrúi frjálslyndra í borgarstjórn, gagnrýnir skipulagsyfirvöld Reykjavíkurborgar fyrir að ráðast í færslu Hringbrautar án þess að skipuleggja fyrst aðliggjandi svæði. Kallar hann skipulagsvinnu borgaryfirvalda ferð án fyrirheits þar sem verið sé að gera hlutina í vitlausri röð. Ólafur tekur undir gagnrýnisraddir átakshóps Höfuðborgarsamtakanna og Samtaka um betri byggð sem hafa gagnrýnt borgaryfirvöld fyrir skammsýni í skipulagsmálum. Þá er hópurinn ósáttur við meðferð tillagna hópsins, sem meðal annars ganga út á að grafa opinn stokk fyrir Hringbraut, hjá Reykjavíkurborg. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telja fulla ástæðu til þess að kanna betur hugmyndir átakshópsins í ljósi athugasemda sem hópurinn gerði við afgreiðslu tillagnanna hjá borginni. "Við viljum gæta alls sannmælis," segir Guðrún Ebba Ólafsdóttir borgarfulltrúi. "Til þess að við séum ekki að loka neinum dyrum er mjög mikilvægt að skoða þetta aftur miðað við hugmyndir þeirra og athugasemdir og leita jafnvel til hlutlauss þriðja aðila." "Það er svolítið seint í rassinn gripið þegar búið er að fara í gegnum allt skipulagsferlið að ætla að koma og umturna öllu," segir Alfreð Þorsteinsson, formaður borgarráðs. "Það eru vinnubrögð sem tíðkast ekki og ganga aldrei upp." Að sögn Alfreðs var tekið tillit til allra sjónarmiða sem fram komu á réttum tíma. Nú sé framkvæmdin hins vegar hafin og því erfitt að hafa áhrif á hana.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×