Innlent

Engin niðurstaða

Engin niðurstaða um framtíð varnarliðsins á Íslandi náðist á fundi Davíðs Oddssonar forsætisráðherra og George Bush Bandaríkjaforseta í Hvíta húsinu í gær. "Forsetinn mun skoða málið með opnum huga. Hann verður að sjálfsögðu að skoða málið frá öllum hliðum. Þetta voru árangursríkar umræður um framtíðina," sagði Davíð við blaðamenn að loknum fundi þeirra Bush. "Við áttum áhugaverðar umræður um mikilvæg málefni, og voru þær opinskáar," sagði Bush. Davíð sagði það ekki hafa verið markmið fundarins að ná niðurstöðu um varnarmálin á Íslandi. "Ég fékk tækifæri til að útskýra afstöðu mína til málsins fyrir forsetanum og er hann að skoða hana og stöðu Íslands með opnum huga," sagði Davíð. Bush sagði að Davíð hefði lagt mikla áherslu á að orustuflugvélarnar yrðu áfram í Keflavík. "Hann var mjög ákveðinn í því að Bandaríkin héldu áfram úti varnarliði sínu á Íslandi. Eins og ég sagði honum er ég opinn gagnvart málinu. Ég vil ganga úr skugga um að ég skilji að fullu afleiðingar þeirrar ákvörðunar um hvort herliðið eigi að vera áfram á Íslandi eða ekki. Við munum leita frekari upplýsinga. Hann ætlar að láta okkur í té upplýsingar um flugvöllinn í Keflavík og hvaða þarfir honum eru fylgjandi. Ég mun ræða við viðkomandi deildir hér og taka ígrundaða ákvörðun um hvernig leiða megi málið til lykta," sagði Bush. Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið að hann ætti ekki von á að málið verði leitt til lykta á þessu ári. "Það var aldrei gert ráð fyrir að endanleg lausn yrði fundin á þessum fundi. Bandaríkjamenn viðurkenna að hafa farið sér of geyst en leggja líka áherslu á að Íslendingar taki aukinn þátt í kostnaði á vörnum landsins." Guðmundur Árni Stefánsson, þingmaður Samfylkingarinnar, telur brýnt að skilgreina varnir landsins sem fyrst og hverfa frá öllu "kurteisishjali" eins og verið hefur hingað til. Hann segir stöðuna einn opna og óvissa eftir fundinn og það sé ólíðandi fyrir starfsfólk á vellinum. Guðmundur Árni segir Samfylkinguna hafi lengi bent á að Íslendingar ættu að axla meiri ábyrgð á rekstri vallarins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×