Erlent

Ferðalög út í geim

Í kjölfar ferðar Geimflaugar eitt (SpaceShipOne) út í geiminn á mánudaginn hafa vaknað spurningar um það hvort flogið verði með ferðamenn þangað innan fárra ára. Burt Rutan, sem hannaði Geimflaug eitt, hefur efasemdir um að það gerist á allra næstu árum. Hann segir að kostnaðurinn við ferðir út í geiminn sé mikill og til þess að þessar ferðir geti borið sig fjárhagslega þurfi geimflaugin að vera stærri en Geimflaug eitt sem er með sæti fyrir þrjá. Það þurfi að minnsta kosti að vera sæti fyrir sex manns, helst fleiri. Rutan segir að ýmsir tæknilegir hnökrar hafi komið í ljós í ferð Geimflaugar eitt. Það gefi augaleið að ef fljúga eigi með farþega út í geiminn verði tæknilega hliðin að vera á hreinu. Þá segir Rutan að flaugar sem fara eigi með ferðamenn upp í geiminn og niður aftur verði að geta farið hærra en Geimflaug eitt, sem fór rétt út fyrir gufuhvolf jarðar eða í um 90 kílómetra hæð. Öðruvísi muni ferðamenn ekki geta flotið um í þyngdarleysi eins og alvöru geimfarar. Bill Sprague, sem er forsvari fyrir annan hóp manna sem er að smíða einkageimflaug, telur vel mögulegt að fara með ferðamenn út í geiminn innan fárra ára. Geimflaugin sem hann er að smíða er fyrir sjö manns. Sprague segir að helsta ástæðan fyrir því að hann sé að smíða geimfar sé einmitt til að þess að geta farið með ferðamenn út í geiminn. Enn sé nokkuð langt í land en þó ekki svo. Áætlað er að geimflaug Sprague og félaga fari í sína jómfrúarferð í september.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×