Innlent

ÁTVR stefnt vegna Essó samnings

Verið er að undirbúa stefnu gegn Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins fyrir brot á lögum um framkvæmd útboða vegna útboðs sem fór fram í Hveragerði. Þá samdi ÁTVR við Essó um að áfengisútsalan yrði rekin á bensínstöð fyrirtækisins. Auk Essó gerðu þrjú önnur fyrirtæki tilboð í reksturinn í Hveragerði og miðaði eitt tilboðanna að því að áfengisverslunin færi inn í Sunnumörk, nýlegt verslunarhúsnæði á staðnum. Sveinbjörn Sveinbjörnsson, framkvæmdastjóri SS verktaka sem á Sunnumörk, bendir á að samið hafi verið við Essó þrátt fyrir að fyrirtækið hafi aðeins boðið upp á um 40 fermetar húsnæði ekki 60 fermetra eins og skilmálar kváðu á um í útboðsgögnum. Hann segir einnig að enginn af bjóðendum hafi fengið formlega tilkynningu um niðurstöðu útboðsins þar með talið hvað Essó bauð. Það sé klárt brot á lögum um framkvæmd útboða og því sé lögfræðingur nú með málið til skoðunar. Samkvæmt lögunum skal opna öll tilboð samtímis á þeim stað og tíma sem kveðið er á um í auglýsingu eða sérstakri tilkynningu. Bjóðendum eða fulltrúum þeirra skal heimilt að vera viðstaddir opnun tilboðanna og þar á lesa upp heildarupphæð tilboðanna. Sveinbjörn segir að þetta hafi ekki verið gert. Raunar viti hann það ekki enn þann dag í dag hvað Essó bauð. Það sé ólíðandi. Orri Hlöðversson, bæjarstjóri í Hveragerði, segir að þetta mál sé allt með ólíkindum. Fyrir utan þau málaferli sem nú séu í farvatninu sé verið að opna áfengisverslunina, opinbera þjónustu, í fullkominni ósátt við bæjarstjórn og gegn undirskriftum 800 bæjarbúa sem vildu að hún yrði inni í Sunnumörk. Hann segist taka undir það með Sveinbirni að ekki hafi verið staðið rétt að útboðinu. Höskuldur Jónsson, forstjóri ÁTVR, segist hafa verið í leyfi þegar útboðið fór fram í Hveragerði og því geti hann ekki svarað fyrir um framkvæmd þess. Hann vísaði á Ívar Arndal, sem var settur forstjóri á þeim tíma sem útboðið fór fram. Ívar vildi ekki tjá sig um málið. Samkvæmt heimildum blaðsins er vel hugsanlegt að fleiri muni stefna ÁTVR í kjölfarið á þessu máli í Hveragerði. Athygli vekur að í öllum þeim tilfellum var samið við fyrirtæki sem leigja aðstöðu af Essó.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×