Innlent

Nemendur mótmæla verkfalli

Nokkrir nemendur í Hvaleyrarskóla í Hafnarfirði efna til setuverkfalls í Karphúsinu á sunnudagskvöld til að þrýsta á um lausn kennaradeilunnar. Við sama tækifæri verða afhentir undirskriftalistar nemenda í unglingadeildum sem hvetja til sátta. Mjög fámennur hópur foreldra mótmælti fyrirhuguðu verkfalli á Austurvelli í morgun. Svo fámennur að formaður Heimilis og Skóla, sem stóð að mótmælastöðunni sagðist vera stórhneykslaður. Kennaradeilan var rædd lítillega á ríkisstjórnarfundi í morgun þar sem menntamálaráðherra lýsti áhyggjum sínum af þróun mála í kjaradeilunni. Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra segir deiluna þó ekki á borði ríkisstjórnarinnar heldur alfarið á forræði sveitarfélaganna. Sáttafundur deilenda hófst klukkan hálf ellefu í morgun, en fundur í gær stóð fram yfir miðnætti. Nemendur eru að vonum áhyggjufullir vegna skólastarfsins og hópur nemenda í tíunda bekk í Hvaleyrarskóla tók sig til og safnaði undirskriftum til að hvetja deilendur til að ná sáttum svo afstýra mætti verkfalli. Nemendurnir segjast hafa áhyggjur af framtíð sinni, þeim sé annt um skólann og þau vilji fá sína menntun. Þau hafa einnig áhyggjur af því að verkfall kunni að hafa áhrif á frammistöðu þeirra í samræmdu prófunum, sem þau telja afar mikilvæg. Og krakkarnir hafa safnað um tvöhundruð undirskriftum. Listinn verður afhentur deilendum í Karphúsinu klukkan sex á sunnudag. Þá verður einnig efnt til setuverkfalls í framhaldinu. Nemendurnir skora á nemendur í Reykjavík að mæta í setuverkfall og sitja frá klukkan sex á sunnudag til miðnættis fyrir utan Karphúsið



Fleiri fréttir

Sjá meira


×