Innlent

Ungir Framsóknar menn klofnir

Ungir framsóknarmenn eru klofnir í afstöðu sinni til fjölmiðlafrumvarpsins. Félag ungra framsóknarmanna í Reykjavík suður styður forystu Framsóknarflokksins í málinu, en Samband ungra framsóknarmanna, á landsvísu, gerir það ekki. Félag ungra Framsóknarmanna í Reykjavík suður er fjölmennasta ungliðahreyfingin innan Sambands ungra Framsóknarmanna. Það er lýsandi um hve skiptar skoðanir eru um fjölmiðlafrumvarpið, að félagið er á öndverðri skoðun við unga Framsóknarmenn á landsvísu, því stjórn Sambands ungra Framsóknarmanna hefur mótmælt áformum ríkisstjórnarinnar, að setja ný fjölmiðlalög í stað þeirra sem forseti vísaði til þjóðarinnar. Það vekur einnig athygli, að með þessu eru ungir Framsóknarmenn í Reykjavík suður jafnframt á öndverðum meiði við almenna fundarmenn í sama kjördæmi, sem mótmæltu hástöfum á opnum fundi þeirra í gærkvöld. Ungir Framsóknarmenn suður mótmæltu fyrra frumvarpi um eignarhald á fjölmiðlum, en telur að það hafi nú tekið stakkaskiptum og að ríkisstjórnin hafi komið til móts við allar þær athugasemdir sem félagið hafði þá varðandi eignarhlut markaðsráðandi fyrirtækja og niðurfellingu útvarpsleyfa strax að tveimur árum liðnum. Guðmundur Halldór Björnsson er stjórnarmaður í félaginu. Hann segir að skiptar skoðanir séu innan flokksins og þau vilji leggja áherslu á málefnin og þau telji að lög um eignarhald á fjölmiðlum þjóni hagsmunum þjóðarinnar þegar til lengri tíma er litið. Hann vildi ekki tjá sig um fund Framsóknarfélagsins sem haldinn var í gær.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×