Innlent

Upplýsingar um farþega afhentar

Frá og með 28. júlí fær bandaríska Tolla- og landamærastofnunin aðgang að upplýsingum um farþega á leið til Bandaríkjanna úr bókunarkerfi Icelandair. Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, segir flugfélagið vera að fara eftir þeim tilskipun sem stjórnvöld setji þeim. Almennir farþegar finni ekki fyrir breytingu. Upplýsingarnar gefi þeir upp við bókun flugs. Björn Geirsson, lögfræðingur hjá Persónuvernd, segir að unnið verði eftir samkomulagi sem Evrópusambandið náði við Bandaríkin um gagnkvæma vernd. "Forsendan fyrir því að við getum verið bundin þessu samkomulagi er að við fáum samsvarandi tryggingar að hálfu Bandaríkjamanna um vernd og öryggi þessara upplýsinga. Samkomulagið felur líka í sér að evrópskum persónuverndarstofnunum er heimilt að framkvæma eftirlit hjá Bandaríkjamönnum til þess að ganga úr skugga um það að farið sé eftir þessu samkomlagi." Samkomulagið er til bráðabirgða og nær til þriggja og hálfs árs og hefur Evrópuþingið til skoðunar hvort bera eigi það undir Evrópudómstólinn. Hann gefur þá endanlegt svar um réttmæti upplýsingagjafarinnar, samkvæmt upplýsingum frá Persónuvernd.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×