Innlent

Töluvert tjón á Hvolsvelli

Töluvert tjón varð á Hvolsvelli og á bæjum þar í grennd í miklu hvassviðri sem geisað hefur víða á suður- og suðvesturlandi í nótt. Á bænum Velli var maður í hættu þegar þak fauk í heilu lagi af gömlu mannlausu íbúðarhúsi og lenti á öðru íbúðarhúsi þar sem maðurinn stóð við glugga. Tré brotnuðu niður í nokkrum görðum á Hvolsvelli og járnplötur losnuðu þar af þökum, sem ekki hefur gerst síðan í febrúarveðrinu mikla fyrir þrettán árum. Vindhraði á þessum slóðum mældist allt að þrjátíu metrum á sekúndu í nótt. Þar og víða annars staðar voru björgunarsveitir kallaðar út til að hefta fjúkandi stillasa, gervihnattadiska og ýmislegt lauslegt sem fólk er ekki búið að njörfa niður fyrir veturinn. Í Eyjum fauk járnplata meðal annars í gegnum stofuglugga og inn á gólf. Björgunarsveitarmenn eru að störfum þar. Þá kemst Herjólfur ekki út samkvæmt áætlun en skilyrði verða könnuð nánar klukkan tíu. Allt innanlandsflug hefur líka legið niðri í morgun. Í morgun hafði lögreglunni í Reykjavík borist tíu beiðnir um aðstoð vegna foks af ýmsu tagi og björgunarsveitarmenn hafa látið til sín taka á tuttugu stöðum. Þar liðaðist meðal annars húsbíll í sundur eftir að vindur komst inn í hann. Þá voru björgunarsveitarmenn kallaðir í suðurbugt Reykjavíkurhafnar til að hemja þar báta, flotbryggjur og landganga. Á Selfossi var hins vegar minni vindur en þar gerði úrhellis rigningu upp úr klukkan þrjú í nótt. Á Reykjanesi var hvasst í nótt en hvergi til vandræða svo vitað sé og millilandaflug gekk samkvæmt áætlun. Myndin er frá Hvolsvelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×