Innlent

Álag á farsímakerfum

Nokkuð var um að viðskiptavinir símafyrirtækjanna, sem staddir voru í miðbæ Reykjavíkur þegar dagskrá Menningarnætur stóð sem hæst, næðu ekki sambandi með farsíma. "Það var talsverður undirbúningur fyrir þetta kvöld og við stækkuðum kerfið vel um annað hundrað rásir. Stöðvum var hagrætt þannig að hægt væri að afgreiða sem mest og álag á stöðvunum var jafnað. Einnig var sett upp aukastöð á hjólum á Arnarhóli," segir Eva Magnúsdóttir, upplýsingafulltrúi Símans, um álagið á Menningarnótt. Eva segir álagið hafa verið svipað og um áramót en nú hafi munurinn verið að öll umferðin fór í gegnum þrjár stöðvar. Um eitt hundrað þúsund manns voru í miðbænum og voru flestar hringingar um ellefuleytið þegar fólk byrjaði að hringja sig saman. Pétur Pétursson, upplýsingafulltrúi Og Vodafone, segir nokkrar nýjar stöðvar hafa verið settar upp í miðbænum fyrir Menningarnótt. Að auki hafi afkastageta stöðvanna sem fyrir voru verið aukin til muna. Hann segir Og Vodafone hafa búið að bættu kerfi í miðbænum frá sautjánda júní og Gay pride. "Álagið var mikið og á hápunktum þurfti fólk að reyna nokkrum sinnum áður en það náði sambandi en kerfið fór ekki á hliðina," segir Pétur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×