Innlent

Fólksfjölgun markmiðið

Bolvíkingar hafa uppi metnaðarfull áform þessa vikuna en í gær var blásið til ástarviku í bænum. Soffía Vagnsdóttir, oddviti minnihlutans í bæjarstjórn, er í forsvari fyrir hátíðina og segir hún að eitt stórt markmið felist með hátíðahöldunum: að fjölga íbúum Bolungarvíkur. Í maí á næsta ári verði svo fylgst grannt með því hvernig fólk hefur staðið sig. Í gær var 200 hjartalaga gasblöðrum sleppt með ástarkveðju til heimsins frá Bolvíkingum. Leikþáttur í flutningi leikhóps frá Súðavík var einnig sýndur en þar er umfjöllunarefnið samskipti kynjanna. Að því loknu var boðið upp á ástarpunga með rúsínum og heitt kakó.  Í kvöld verður samkoma í sundlaug bæjarins þar sem tendruð verða rauð ljós og rómantísk tónlist spiluð. Að henni lokinni verða risastór rauð hjörtu tendruð á einum útivegg íþróttahússins og munu þau loga alla vikuna. Á morgun verður farið í ástargöngutúr þar sem gengið er saman, hönd í hönd. Tónleikar verða á fimmtudaginn með Eyjólfi Kristjánssyni og á laugardaginn verður matarveisla með mjög rómantísku ívafi svo ekki sé meira sagt að sögn Soffíu. Nokkrar vangaveltur eru hins vegar innan bæjarstjórnar Bolungarvíkur hveru mikið þurfi að stækka grunnskólann árið 2011 þegar öll börnin, sem verða til þessa viku, hefja sína skólagöngu.  Hægt er að hlusta á viðtal við Soffíu með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×