Innlent

Sprengjuhótunin dýrt spaug

Boeing 737 þota Íslandsflugs, með 146 farþega innanborðs, þurfti að lenda á flugvellinum í Lyon í Frakklandi í gærkvöld vegna sprengjuhótunar. Þarna var þó um gabb að ræða, eða öllu heldur fremur dýrt spaug. Flugvélin var í leiguflugi á leið frá Napolí til Dyflinnar þegar einn flugliði fann miða á salerni vélarinnar sem á stóð „Sprengja 11. september“. Hótunin var tekin alvarlega og var vélinni beint til Saint Exupery flugvallar í Lyon. Farþegar og áhöfn yfirgáfu þotuna og voru yfirheyrðir á meðan leitað var ítarlega í vélinni en ekkert grunsamlegt fannst. Vélin lenti svo í Dyflinni um eittleytið í nótt eftir níu klukkustunda óvænta viðdvöl á flugvellinum í Lyon. Tveir Íslendingar voru í áhöfn vélarinnar en aðrir voru erlendir. Ómar Benediktsson, framkvæmdastjóri Íslandsflugs, segir að áhöfnin hafi brugðist hárrétt við aðstæðum. Ný áhöfn tók svo við vélinni í Lyon og hún undirbúin sérstaklega til að umgangast farþegana því vissulega sé ákveðin hræðsla enn fyrir hendi eftir að svona gerist, þrátt fyrir að búið sé að leita í vélinni og farangri. Ómar segir Íslandsflug jafnframt hafa haft fólk til að taka á móti fólkinu í Dyflinni.     Ómar segir að Íslandsflug beri þann kostnað sem fylgi uppákomu sem þessari því það muni líklega aldrei sannast hver gerði þetta. Aðspurður hvort hann telji að það sé einn af farþegunum segir Ómar það nokkuð ljóst. Þeir hafi allir verið yfirheyrðir og eru tveir sterklega grunaðir en Ómar segir ólíklegt að það leiði til einhverrar niðurstöðu. Hægt er að hlusta á viðtal við Ómar úr hádegisfréttum Bylgjunnar með því að smella á hlekkinn hér að neðan.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×