Innlent

Aldrei stóð til að TM keypti

Forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar segir aldrei hafa staðið til að fyrirtækið fjárfesti í Skjá einum. Framkvæmdastjóri Skjás eins segist hafa átt fundi með Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni stjórnarformanni TM vegna hugsanlegra kaupa, en aldrei fund með Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni formanni útvarpsráðs Ríkisútvarpsins. Stöð 2 hefur traustar heimildir fyrir því að Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson formaður útvarpsráðs hafi verið virkur í viðskiptum Símans á fjórðungshlut í Skjá einum og sýningarrétti á ensku knattspyrnunni. Í DV í gær segir Magnús Ragnarsson að hann hafi aldrei átt fundi með Gunnlaugi Sævari Gunnlaugssyni formanni útvarpsráðs, en hann hafi hitt Gunnlaug Sævar Gunnlaugsson stjórnarformann Tryggingamiðstöðvarinnar um hugsanlega aðkomu Tryggingamiðstöðvarinnar að Skjá einum. Gunnar Felixson forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar sagði í samtali við Stöð 2 í dag að aldrei hafi staðið til að Tryggingamiðstöðin fjárfesti í Skjá einum og það stæði ekki til. Hann sagðist búast við að sér væri kunnugt um það ef einhver áform um slík viðskipti væru uppi. Eins og fyrr segir hefur Stöð 2 traustar heimildir fyrir aðkomu formanns útvarpsráðs að fyrrgreindum viðskiptum Símans og Skjás eins. Mentamálaráðherra, yfirmaður útvarpsráðs, sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að Gunnlaugur Sævar hefði tjáð sér að hann hefði ekki skipt sér af viðskiptunum og hún tryði honum og treysti til áframhaldandi formennsku í útvarpsráði. Þá sagðist ráðherra ekki sjá hættuna á vangaveltum um hlutverk formannsins þegar hann gegnir ýmsum trúnaðarstörfum og sæi ekki að þau sköruðust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×