Innlent

Eini skriðjökull landsins

Reykjarfjarðarjökull sem gengur niður úr Drangajökli á Vestfjörðum hefur skriðið á annað hundrað metra á síðustu þremur árum. Hann er eini jökull landsins sem skríður fram. Einn helsti jöklafræðingur landsins segir að búast megi við að jökullinn skríði nokkur hundruð metra á þessum áratug.  Fyrir þremur árum hóf Reykjafjarðarjökull að skríða fram. Ragnar Jakobsson, sem búið hefur í Reykjarfirði áratugum saman, segir jökulinn hafa skriðið fram um eina 70 metra í fyrra og líklega svipað í ár, jafnvel heldur meira. Alls hefur jökullinn skriðið hátt í tvö hundruð metra á þessum þremur árum. Ragnar segir ásjónu jökulsins hafa breyst mikið í tímans rás. Þetta skrið er afar sérstakt. Oddur Sigurðsson jarðfræðingur segir þetta vera eina jökulinn á landinu sem hann viti til um að skríði fram. Hann segir að svona skrið eigi sér stað með 60 til 70 ára millibili, alveg óháð veðurfari. Ástæðan er ókunn og segir Oddur þetta eina af óráðnu gátum jöklafræðinnar. Oddur segir að búast megi við áframhaldandi skriði jökulsins í þrjú til fjögur ár til viðbótar. Fyrir sjötíu árum hafi jökullinn skriðið fram um 700-800 metra en erfitt sé að spá fyrir um vegalengdina sem hann skríði í þessari lotu. Jökullinn sé kominn á annað hundrað metra og ef hann haldi áfram í nokkur ár til viðbótar geti hann bætt nokkuð hundruð metrum við.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×