Innlent

Staða krónunnar óheppileg

Sterk staða krónunnar er óheppileg fyrir þjóðarbúið þegar á heildina er litið að mati Samtaka atvinnulífsins. Launahækkanir opinberra starfsmanna eru langt umfram þróun á almennum vinnumarkaði og greiðsluafgangur ríkissjóðs er of lítill. Eftir sjöttu hækkun stýrivaxta á þessu ári, að þessu sinni um eitt prósent, hefur gengi krónunnar styrkst um fimm prósent. Það jafngildir fimmtán milljarða tekjulækkun útflutningsgreina á ársgrundvelli samkvæmt útreikningi Samtaka atvinnulífsins. Hið sterka gengi krónunnar hefur margvísleg áhrif. Skuldir í Bandaríkjadölum verða hagkvæmari, eldsneyti lækkar sem og alls konar aðrar neysluvörur. Þar kemur á móti að tekjur af útflutningi skerðast verulega. Spurningin er: hvort vegur þyngra, kostirnir eða gallarnir? Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, telur gallana vega þyngra því þá halli á alla. Samtök atvinnulífsins hafa talsverðar áhyggjur af launaþróun þar sem laun opinberra starfsmanna hafa hækkað miklu meira en laun á almennum markaði. Ari segir að eitt af því sem hækki raungengið og veiki samkeppnisstöðuna sé launaþróunin og því gagnrýna samtökin að ekkert lát sé á því að opinberir aðilar leiði launaþróunina.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×