Innlent

Framleiðsla kísildufts úr sögunni

Hugmyndir um framleiðslu kísildufts á Mývatni eru endanlega úr sögunni eftir að Promeks, fyrirtækið sem þróaði aðferð við vinnslu þess, fór fram á gjaldþrotaskipti í gær. Kristján Möller Samfylkingu tók málið upp utan dagskrár á þingi í dag. Hann sagði stöðuna vera alvarlega, fjöldi starfa hefði tapast og nauðsynlegt að taka til hendinni. Ríkið yrði að að koma að málinu og ætti að selja sinn hlut sem fyrst því fjárfestar væru oftast ginkeyptari fyrir rekstri en að leggja til peninga til að byggja upp frá grunni. Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra upplýsti að hún hefði fengið slæmar fréttir af örlögum kísilduftverksmiðju í gærkvöldi, þ.e. að norska fyrirtækið Promeks, sem þróaði aðferð við vinnslu kísildufts, hefði farið fram á gjaldþrotaskipti. Málið væri því aftur komið á byrjunarreit. Litlu hefði munað að fjármögnun kísilduftsverksmiðju tækist en nú yrði að leita nýrra leiða. Einar Már Sigurðsson Samfylkingu sagði að of mikil áhersla hefði verið lögð á duftið og gera hefði átt áætlun til vara. Valgerður viðurkenndi að hafa eytt fullmiklum tíma í duftið en svona væri staðan og ekkert annað að gera en að spýta í lófana og leita nýrra atvinnutækifæra í Mývatnssveit.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×