Innlent

Tækifæri til að gera betur

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir menntamálaráðherra telur að íslenskir unglingar komi ágætlega út úr niðurstöðum Pisa-könnunarinnar í stærðfræði, lestri og náttúruvísindum. Hún bendir á að áhersla sé lögð á stærðfræði í könnuninni og þar standi Íslendingar vel. Stelpurnar séu í heimsklassa og strákarnir hafi miðlungsþekkingu. Skoða þurfi hvers vegna stelpurnar skara fram úr og hífa strákana upp. "Við megum ekki leggja árar í bát. Við verðum að skoða af hverju það gengur svona vel með stelpurnar og hífa strákana upp úr meðaltalinu," segir hún. Íslensku unglingarnir eru í meðaltali í lestrarkunnáttu og þekkingu í náttúruvísindum og þar segir Þorgerður Katrín að séu mikil sóknarfæri. "Í þessum fögum erum við að koma þokkalega út. Auðvitað vill maður sjá betri árangur í lestri og náttúruvísindum, líka í stærðfræðinni í framtíðinni. Engu að síður erum við að bæta okkur. Í Noregi og Danmörku eru unglingarnir ekki að bæta þekkingu sína, hún er að versna. Það er stóra áhyggjumálið. Ef það hefði gerst hér þá myndi heyrast annað hljóð úr horni," segir hún. Allar Norðurlandaþjóðirnar horfa nú til skólastarfsins í Finnlandi en Finnar voru í fyrsta og öðru sæti í könnuninni. "Könnunin er vísbending um að við séum að gera þokkalega hluti. Við erum með samræmd próf og ekki mjög miðstýrt kerfi. Við erum að gera eins og Finnarnir, einblínum á einstaklingsmiðað nám til að draga fram hæfileika hvers og eins. Þeir eru löngu byrjaðir á þessu og við erum að byrja," segir hún. "Við erum að taka réttu skrefin en eigum að nýta okkur svona kannanir til að taka þau markvisst. Ég sé þetta bara sem tækifæri til að móta þetta starf enn betur."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×