Erlent

Spenna Vesturlanda og Rússa vex

Úkraínska þingið samþykkti í morgun lög sem gera það kleift að halda nýjar kosningar í landinu. Spennan á milli Vesturlanda, Rússlands og stjórnvalda í Úkraínu fer vaxandi og var fundi utanríkisráðherra NATO með utanríkisráðherra Úkraínu frestað í morgun, að sögn heimildarmanna innan NATO, þangað til ný og lögmæt stjórn tekur við völdum í landinu. Nú þykir víst að eitrað var fyrir Viktor Júsjenko, forsetaframbjóðanda stjórnarandstöðunnar, í aðdraganda kosninganna. Læknir hans segir í dag í viðtali við breska dagblaðið Times að Júsjenko hafi verið byrlað eitur. Hann vildi þó ekki staðfesta þetta í viðtali við Reuters og sagði alla möguleika skoðaða en að sérfræðingar í Frakklandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi einblíndu nú á tvö atriði. Í viðtalinu við Times segir læknirinn augljóst að reynt hafi verið að ráða Júsjenko af dögum. Þar segir einnig að það sé aðeins tímaspursmál hvenær læknarnir finna út hvert efnið sé sem orðið hafi þess valdandi að andlit Júsjenko hefur afmyndast á undanförnum mánuðum. Úkraínska þingið samþykkti fyrir stundu lög og stjórnarskrárbreytingar sem heimila að forsetakosningarnar í landinu verði endurteknar. 402 af 450 þingmönnum samþykktu frumvarp sem koma á í veg fyrir að kosningasvindl verði með sama hætti og þegar kosið var í nóvember. Ekkert verður af fundi utanríkisráðherra NATO-ríkjanna með utanríkisráðherra Úkraínu, en hann átti að fara fram á morgun. Ástæðan er stjórnmálaástandið í Úkraínu. Þetta þykir til merkis um versnandi samskipti Vesturlanda við Úkraínustjórn sem er mjög hliðholl Rússum. Heimildarmaður Reuters hjá NATO segir hafa verið ákveðið að bíða þess að ný og lögmæt ríkisstjórn tæki við völdum í landinu. Frestun fundarins séu skilaboð frá NATO-ríkjunum þess efnis að ekki sé litið á núverandi ríkisstjórn sem lögmæta stjórn landsins. Frá sjónarhóli Gryzlovs, forseta rússneska þingsins, er ljóst að einungis ein stjórn er lögmæt og getur viðhaldið heiðarleika í Úkraínu: stjórn undir forystu Viktors Janúkovítsj, sem er hliðhollur Rússum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×