Erlent

Sprenging í íbúð í Stokkhólmi

Lögreglu í Stokkhólmi grunar að sprengja hafi sprungið í fjölbýlishúsi í miðborg Stokkhólms í morgun. Svo virðist sem sprengingin hafi orðið á fimmtu hæð og við það hafi risíbúðin fyrir ofan sprungið í tætlur. Sænskir fjölmiðlar lýsa því þannig að húsið hafi rifnað, efsta íbúðin hrunið og nærliggjandi íbúðir stórskemmst. Steypu, grjóti og rúðugleri rigndi yfir bíla sem lagt var við götuna og er augljóst að verr hefði farið ef sprengingin hefði orðið eftir að fólk var komið á stjá. Eins manns er saknað, þess er bjó í risíbúðinni, en aðeins tveir slösuðust og báðir minniháttar. Lögreglan telur sig hafa útilokað að um gassprengingu hafi verið að ræða og leitar nú í húsinu með sprengjuleitarhundum. Hætta er á frekara hruni og hafa allar íbúðir í húsinu verið rýmdar. Allt tiltækt lögreglu- og sjúkralið var kallað á staðinn sem og strætisvagnar til að flytja fólk í nærliggjandi húsum á brott. Umferð um næsta nágrenni hefur verið stöðvuð og getur lögreglan ekkert sagt til um það á þessari stundu hvenær verður óhætt að snúa aftur á staðinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×