Innlent

Strætó frjálst að fá upplýsingar

Persónuvernd gerði ekki neinar athugasemdir við að lögregla veitti Strætó upplýsingar um hvort maður sem sækti um vinnu sem vagnstjóri hefði tilskilin réttindi. Framkvæmdastjóri Strætós notaði tregðu á slíku sem afsökun fyrir því að próflaus vagnstjóri fékk vinnu hjá fyrirtækinu. Upp komst að bílstjóri hjá Strætó bs. hafði ekki ökuréttindi, þegar hann keyrði á, í tvígang, á sömu vaktinni. Maðurinn hafði verið sviptur ökuskírteini en ekki skilað því inn og framvísaði því þegar hann sótti um vinnu, sem bílstjóri. Ásgeir Eiríksson, framkvæmdastjóri Strætó, bs. sagði í viðtölum við fjölmiðla, að hann ætti í viðræðum við starfsmenn hjá lögreglustjóraembættinu, um hugsanlegar aðgerðir. Í samtali við Fréttablaðið, í dag, segir Ásgeir að það sé ekki sjálfgefið að þeir geti fengið upplýsingar, til dæmis um hvort skírteini séu í gildi, þar sem það flokkist undir persónuvernd. Fréttastofan hefur talað við allmarga aðila hjá lögreglunni, og voru þeir sammála um að þeir gætu ekki séð neitt því til fyrirstöðu að upplýsa Strætó um hvort ökuskírteini væru gild, ef eftir því yrði leitað, skriflega. Sigrún Jóhannesdóttir, framkvæmdastjóri Persónuverndar, kvað jafnvel sterkar að orði. Hún sagði í samtali við fréttastofuna að það væri af og frá að Persónuvernd myndi gera athugasemdir við að slíkar upplýsingar væru veittar. Sigrún sagði orðrétt: "Þegar þú sækir um vinnu þarftu að leggja fram skilríki sem sýna að þú sért fær um að gegna henni. Við myndum aldrei gera athugasemdir við það."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×