Innlent

Ekkert athugavert við málatilbúnað

Jón Sveinsson lögmaður sem sat í starfshópi ríkisstjórnarinnar vegna þjóðaratkvæðagreiðslu sér ekkert athugavert við málatilbúnað ríkisstjórnarinnar vegna fjölmiðlafrumvarpsins nýja. Jón Sveinsson og Eiríkur Tómasson lagaprófessor eru helstu ráðgjafar Framsóknarflokksins um lögfræðileg málefni. Mismunandi afstaða þeirra bendir til þess að Framsóknarmenn séu klofnir í málinu. Jón Sveinsson segir að samkvæmt þrettándu grein stjórnarskrárinnar feli forseti ráðherrum að framkæma vald sitt. Hann virðist því samstíga til að mynda forsætisráðherra sem telur að aðkoma forseta Íslands að lagafrumvörpum sé einungis formsatriði. Jón Sveinsson segir enn fremur grundvallaratriði að alþingi geti hvenær sem er breytt gildandi lögum. Hann bendir á að þegar ný lög séu sett séu yfirleitt alltaf gildandi lög felld úr gildi með klásúlu í sama lagafrumvarpinu. Hann telur ekki að það þyrfti að fara öðruvísi að þótt forseti hafi beitt synjunarvaldi sínu. Alþingi hafi ekki afsalað sér völdum til að setja lög með neinum hætti þrátt fyrir synjun forsetans. Sá ágreiningur sem er kominn upp vegna ákvörðunar ríkisstjórnarinnar um að afstýra þjóðaratkvæðagreiðslu með því að draga frumvarpið til baka og leggja það fram í breyttri mynd í sama frumvarpinu, virðist áfram kristallast í því hvort forseti Íslands hafi raunverulegt synjunarvald eða ekki. Hvort hann sé hluti af löggjafarvaldinu og framkvæmdavaldinu eins og önnur grein stjórnarskrárinnar kveður á um eða hvort það beri að túlka þrettándu greinina um að hann feli ráðherrum að framkvæma vald sitt, bókstaflega þannig að skýra beri aðrar greinar stjórnarskrárinnar þar sem fjallað er um valdsvið forsetans með hliðsjón af henni og aðkoma forsetans sé þá einungis formsatriði. Bæði Eiríkur Tómasson og Jón Sveinsson hafa verið helstu ráðgjafar Framsóknarmanna varðandi lögfræðileg álitaefni og því er ágreiningur þeirra athyglisverður með hliðsjón af því. Hvort sjónarmiðið verður ofan á í Framsóknarflokknum hlýtur að koma í ljós á næstu dögum. Jón Sveinsson segir að þetta sé ekki pólitískur ágreiningur heldur lögfræðilegur, og það verði svo stjórnmálamannanna að meta hvernig veður skipast í lofti. Samkvæmt heimildum Fréttastofu Stöðvar 2 telja margir þingmenn Framsóknarflokksins að ríkisstjórnin ætti að afturkalla frumvarpið og bíða með málið. Hjálmar Árnason formaður þingflokks Framsóknarflokksins segir að farið verði yfir stöðu mála á þingflokksfundi á mánudag. Fyrr sé ekki hægt að gefa neitt upp um hvort afstaða þingflokksins hafi breyst í málinu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×