Innlent

Alþjóðleg glæpastarfsemi á Íslandi

Talið er fullvíst að alþjóðlegur glæpahringur standi á bak við tilraun nígerískrar konu til að smygla hálfu kílói af kókaíni til landsins. Sams konar mál hafa komið upp í nágrannalöndunum undanfarnar vikur. Konan var handtekin í Flugstöð Leifs Eiríkssonar, aðfararnótt fimmtudagsins, þegar fundust á henni 155 grömm af kókaíni, innan klæða. Hún var send í röntgenmyndatöku og kom þá í ljós að hún hafði einnig gleypt hylki með um 330 grömmum af efninu. Söluandvirði kókaínsins gæti verið hátt í 30 milljónir króna, ef það er vel hreint. Konan, sem er um þrítugt kom hingað til lands með Flugleiðavél frá Kaupmannahöfn. Til Danmerkur hafði hún komið frá Spáni og hugsanlega enn lengra að. Ekki er vitað hvar hún tók fíkniefnin, en hinsvegar er enginn vafi á að þeim var ætlað að fara til Íslands, þar sem konan átti ekki bókað far aftur til Kaupmannahafnar fyrr hinn þrettánda þessa mánaðar. Hún var lögð inn á sjúkrahús hér á landi, og hefur þar verið að skila af sér kókaínhylkjunum sem hún gleypti. Þetta er í annað skipti á skömmum tíma sem kona frá Afríku er tekin fyrir eiturlyfjasmygl til Íslands. Hinn tíunda júní síðastliðinn var kona frá Sierra Leone, handtekin í Leifsstöð, með yfir 5000 E-töflur. Eyjólfur Kristjánsson, lögfræðingur hjá Sýslumannsembætinu, í Keflavík, sagði í samtali við fréttastofuna, að þessi tvö mál tengist ekki. Hinsvegar sé verið að rannsaka hvort kókaínsmyglið tengist öðrum eiturlyfjamálum. Eyjólfur sagði að þarna væri augljóslega um að ræða alþjóðlega glæpastarfsemi, og að undanfarnar vikur hafi verið að koma upp svipuð mál í löndunum í kringum okkur.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×