Innlent

Tvö andstæð lögfræðiálit

Allsherjarnefnd Alþingis hefur fengið tvö algerlega andstæð lögfræðiálit um heimild ríkisstjórnarinnar til að leggja fram nýtt frumvarp til fjölmiðlalaga um leið og fjölmiðlalögin, sem forseti synjaði staðfestingar, voru felld úr gildi og forsendur fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu að engu gerðar. Davíð Þór Björgvinsson, prófessor í lögum og verðandi dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, segir að synjun forseta afnemi ekki stjórnarskrárvarinn frumkvæðisrétt þingmanna til að leggja fram lagafrumvörp, hvorki um fjölmiðla né önnur mál. Eiríkur Tómasson, prófessor í lögum, sem eins og Davíð Þór hefur margsinnis verið ríkisstjórninni til ráðgjafar um lögfræðileg álitamál, telur aftur á móti að útspil ríkisstjórnarinnar stangist á við stjórnarskrá, málið sé úr höndum Alþingis uns þjóðaratkvæðagreiðsla hafi farið fram. Alþingi megi hugsanlega fella lögin úr gildi, eins og yrði þeim synjað í þjóðaratkvæðagreiðslu, en ekki ganga lengra en þjóðinni væri heimilt, og leggja fram nýtt frumvarp með breytingum. Sé fallist á það hafi Alþingi ávallt síðasta orðið, þótt ætlast sé til að forseti Íslands hefði það með því að geta lagt lög í dóm þjóðarinnar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×