Innlent

Síminn braut samkeppnislög

Síminn braut samkeppnislög með því að bjóða og kynna áskriftartilboðið "Allt saman hjá Símanum," að því er fram kemur í bráðabirgðaákvörðun Samkeppnisstofnunar frá því í gær, föstudaginn 9. júlí. Frá og með birtingu ákvörðunarinnar er Símanum því óheimilt að kynna þetta áskriftartilboð eða skrá nýja viðskiptavini samkvæmt því. Og Vodafone kvartaði yfir tilboðinu til Samkeppnisstofnunar í byrjun júní sl., en í því földust afslættir og sértilboð sem viðskiptamönnum Símans stóðu til boða ef væru með talsíma, farsíma og Internetþjónustu hjá Símanum. "Umræddir afslættir eru augljóslega tryggðarafslættir og ekki verður séð að hlutlæg kostnaðarrök búi þar að baki. Því má ljóst vera að tilgangur tilboðsins er að binda viðskiptavini við Landssímann og útiloka þannig keppinauta Landssímans," segir í bréfi Og Vodafone til Samkeppnisstofnunar. Samkeppnisstofnun telur verulegar líkur á að tilboð Símans feli í sér misnotkun á markaðsráðandi stöðu og gaf því út bráðabirgðaákvörðun til að stöðva tilboðið og kynningu þess þar til Samkeppnisráð hefur tekið málið fyrir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×