Innlent

Sambandsleysið algjört

Dómur verður upp kveðinn í lok mánaðarins í sakamáli á hendur Jóni Árna Rúnarssyni, fyrrum skólastjóra Rafiðnaðarskólans. Jóni Árna er gefið að sök að hafa dregið sér tæpar 29 milljónir króna af eftirmenntagjaldi rafeindavirkja. Þá er hann ákærður fyrir skjalafals, en að sögn Guðjóns Magnússonar, fulltrúa Lögreglustjóra, var ákveðið að láta reyna á þá ákæru fyrir dómi þrátt fyrir að ekki hafi náðst í vitni í þeim lið. "Að öðrum kosti eru líkur á að málinu verði frestað til haustsins og þá hefði jafnvel þurft að taka upp aðalmeðferðina aftur," sagði hann. Málflutningi fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur lauk í gær. Í lokaræðu Reimars Péturssonar, verjanda Jóns Árna, ræddi hann ábyrgð stjórnarmanna í eftirmenntunarnefnd rafeindavirkja og dró í efa að þeir hefðu ekki vitað af greiðslum úr sjóði nefndarinnar til Jóns Árna. Guðjón Magnússon tók á vissan hátt undir að brotalamir hafi verið á störfum nefndarmanna og við tilhögun greiðslna. "Sambandsleysið virðist hafa verið algjört í kerfinu," sagði hann, en benti um leið á að Jón Árni hafi í raun verið sá eini sem alla þætti þekkti og bar boð á milli manna.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×