Innlent

Listrænn laugardagur í miðbænum

Í dag verður Listrænn laugardagur í Magnaðri miðborg haldinn í miðbæ Reykjavíkur. Mögnuð miðborg er yfirskrift skipulagðrar dagskrár í sumar í miðborg Reykjavíkur. Takmarkið er að fá sem flesta til að leggja sitt af mörkum til að skapa skemmtilega stemmningu í miðborginni. Á listrænum laugardegi verður boðið upp á íslenska list, hönnun, handverk, útimarkað og gönguferðir. Meðal annars mun Birna Þórðardóttir fara í sælkera- og fagurkeragöngu um Skólavörðustíginn. Þær Úlfhildur Dagsdóttir og Jónína Óskarsdóttir stýra gönguferð um miðborgina þar sem ljóð og sögur eftir konur verða í hávegum höfð. Á Lækjartorgi verður útimarkaður með lífrænar vörur og við útitaflið í Lækjargötu tefla félagar úr Skákfélaginu Hróknum við gesti og gangandi. Dagskrá Magnaðrar miðborgar hófst laugardaginn 12. júní með fjölskylduhátíð. Dagskráin heldur áfram 10. júlí með Listrænum laugardegi og 24. júlí með Alþjóðlegum laugardegi. Dagskránni í sumar lýkur með haustfagnaði 28. ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×