Innlent

Þúsund krónur á ferðamann

Nýlega var tilkynnt að kynningarátakið Iceland Naturally sem er samstarfsverkefni ríkisins og sjö íslenskra fyrirtækja vestur í Bandaríkjunum yrði framlengt með óbreyttu sniði næstu fjögur árin. Í ár eru fimm ár liðin síðan átakinu var hleypt af stokkunum en árlega hefur verið varið sem nemur tæpum 72 milljónum króna til verkefnisins. Skiptist sá kostnaður milli ríkisins og þeirra fyrirtækja sem þátt taka en þau greiða þó aðeins þriðjung. Sé miðað við þann fjölda bandarískra ferðamanna sem hingað komu á síðasta ári má nærri geta að ríkið eyði sem nemur rúmum þúsund krónum á hvern þann ferðamann sem hingað kom en alls komu hingað til lands tæp 48 þúsund ferðalangar frá Bandaríkjunum árið 2003. Hver og einn ferðalangur þarf því lítið annað en kaupa sér léttan hádegisverð til að ríkið fái til baka það fé sem varið hefur verið til átaksins Ferðamönnum frá Bandaríkjunum hefur þó fækkað til muna síðan Iceland Naturally var hleypt af stokkunum en að stórum hluta má þar um kenna hryðjuverkunum í New York í september 2001. Metárið var árið 2000 þegar rúmlega 57 þúsund bandarískir ferðalangar sóttu landann heim.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×