Innlent

Selja ætti Símann sem allra fyrst

Samstaða er innan Sjálfstæðisflokksins að selja Landssímann sem fyrst, segir Einar Oddur Kristjánsson, varaformaður fjárlaganefndar og þingmaður Sjálfstæðisflokks. "Ég vona að salan verði sem allra fyrst og fyrir áramót," segir Einar Oddur. Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytis og starfsmaður framkvæmdanefndar um einkavæðingu, segir pólitískar ákvarðanir um tímasetningu og tillhögun sölu Landssímans ekki liggja fyrir og því sé ekki hægt að setja söluferli í gang. Ekki sé þó hægt að fullyrða að Síminn verði ekki seldur fyrir áramót. Salan tæki þó líklega lengri tíma þótt menn einentu sér í söluna. Einar Oddur telur að fyrirtækið verði selt í heilu lagi. Baldur segir að um það hafi ekki verið tekið ákvörðun. Markmið sölunnar ráði því og það liggi ekki fyrir. Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segir framkvæmd útboðsins skipta mestu máli fyrir einkavæðingu Símans. Hún telur að leita eigi tilboða og selja Símann hæstbjóðanda. Jón Þór Sturluson, hagfræðingur hjá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands, segir kaupverðið ekki aðalatriðið. "Það sem skiptir mestu máli við einkavæðingu er að skapa heilbrigða samkeppni í viðkomandi grein. Kaupverðið er ekki aðalatriðið. Það kemur margfalt til baka með óbeinum hætti; með hagnaði fyrirtækjanna eða ábata neytanda ef það tekst að skapa öfluga samkeppni," segir Jón Þór. Jón Þór segir mikilvægt að markmið ríkisstjórnarinnar séu skýr og þekkt fyrir útboðið. "Það er óheppilegt ef ríkið getur hopað frá sölunni. Reglurnar verða að vera vel kynntar svo flestir geti boðið í Símann. Það er ákaflega mikilvægt að erlendir aðilar hafi tækifæri til að bjóða í fyrirtækið því það setur pressu á innlenda fjárfesta." Jón Þór segir ekki eins mikilvægt nú og áður að peningar fyrir Símann komi erlendis frá. Íslenska fjármálaumhverfið sé orðið það alþjóðlegt og innlendir fjárfestar dragi að sér erlent fjármagn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×